Loftmyndir ehf.

Höfuðborgarsvæðið mælt í þrívídd

Undanfarin 23 ár hafa Loftmyndir ehf. tekið loftmyndir af Íslandi. Þetta árið var ákveðið að færa út kvíarnar og hefjast handa við að safna svokölluðum Lidar gögnum eftir að hefðbundinni loftmyndatöku lauk síðsumars. Lidar tækni gengur út á að búa til nákvæmt landlíkan með því að senda leysigeisla til jarðar úr flugvél. Tækið í flugvélinni mælir tímann og bylgjulengd ljóssins þegar það kemur til baka og breytir þeim upplýsingum í hæðarmælingu. Fleiri upplýsingar leynast í Lidar gögnunum því styrkur endurkastsins gefur einnig til kynna hvernig yfirborð landsins er og sami leysigeislinn endurkastast af fleiri en einum hlut t.d. fyrst af toppi trés svo af grein og að lokum af jörðinni. Allar þessa upplýsingar geymast í gögnunum og er því hægt að meta hæð gróðurs eða annarra fyrirbæra með landlíkaninu. Stór kostur við þessa tækni er hve þétt punktaskýið getur orðið og einnig nær tækið að gera landlíkan inn í dimma skugga af t.d. giljum eða húsum. Alls voru flognir 9 staðir þmt. allt höfuðborgarsvæðið og Akureyri í yfir 20,000 km flugi og safnað var yfir 12 milljörðum mælipunkta.

 

Þrívíddarskönun af Skólavörðuholtinu