Loftmyndir ehf.

Fréttir

Filmu- og kontaktmyndasafn Loftmynda ehf. til varðveislu hjá Þjóðskjalasafni Íslands

Loftmyndir ehf. og Þjóðskjalasafn Íslands hafa gert samkomulag um varðveislu loftmyndasafns Loftmynda ehf. Í safninu eru allar loftmyndafilmur og kontaktmyndir sem Loftmyndir ehf. hafa tekið frá upphafi. Safnið spannar árin 1996 til 2016 og eru í því litmyndir af öllu landinu, utan Vatnajökuls, ríflega 52 þúsund myndir.

Öllum notendum Þjóðskjalasafns verður heimilt að fá myndir og filmur til skoðunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns. Höfundarréttur Loftmynda ehf. er samkvæmt gildandi lögum, þannig að engar takmarkanir verða á afnotarétti að liðnum 30 árum frá tökudegi hverrar myndar.

Loftmyndir ehf. fagna þessu samkomulagi, því það tryggir að mikilvægum sögulegum gögnum er komið í öruggt skjól og að aðgangur almennings að myndasafninu er tryggður.

Óafsfjörður 1996

Loftmyndaflug hefst senn

Um miðjan júlí mun flugtímabil Loftmynda ehf. hefjast og standa fram í lok ágúst. Eins og fram hefur komið þá fjárfesti fyrirtækið í nýrri Vexcel loftmyndavél í vor. Fyrsta myndatakan með þeirri vél hefur þegar farið fram er Teigskógur var myndaður í lágflugi í vor. Sú myndataka heppnaðist vel og gefur góð fyrirheit um gæði mynda og landlíkans sem vélin skilar. Starfsfólk Loftmynda ehf. vonar því, eins og flestir Íslendingar, að það rætist úr veðri og ský hverfi á braut. Hér að neðan má sjá myndir af þeim svæðum þar sem búið er að skipuleggja flug. Ólíklegt er að allt miðflug náist, en gott er að hafa mikið planað víða um land til að nýta þau færi sem veðrið bíður uppá hverju sinni. Áhersla er lögð á að ná því lágflugi sem planað er.

Flugáætlun Loftmynda ehf. - Lágflug

Lágflug

Flugáætlun Loftmynda ehf. - Miðflug

Miðflug

Ný stafræn loftmyndavél tekin í gagnið hjá Loftmyndum ehf.

Loftmyndir hafa tekið í gagnið nýja stafræna loftmyndavél af gerðinni Vexcel UltraCam Falcon M2. Hún leysir af hólmi eldri filmuvél af gerðinni Zeiss RMK-Top. Nýja myndavélin hefur upplausnina 17 þúsund * 11 þúsund myndeiningar og auk litmynda tekur hún einnig innrauðar myndir, sem munu nýtast vel t.d. í gróður- og umhverfisrannsóknum.
Með fjárfestingu í þessari nýju myndavél geta Loftmyndir ehf. boðið viðskiptavinum sínum upp á nýjustu tækni í loftmyndatöku, þar sem allur tækjabúnaður er til reiðu innanlands og tilbúinn til notkunar með skömmum fyrirvara.
Nýja myndavélin hefur þegar farið í sitt fyrsta verkefni og má sjá hluta af þeim myndum hér.